top of page

Gagnsæi í stjórnsýslu


Á undanförnum árum hafa opinberir aðilar lagt aukna áherslu á vandaða meðferð og miðlun upplýsinga. Við á Íbúalistanum höfum þá hugsjón að Ölfus geri betur í því samhengi, að þær ákvarðanir sem teknar eru séu sannarlega byggðar á bestu fáanlegu upplýsingum og að íbúar og hagsmunaaðilar séu vel upplýstir um ákvarðanir og forsendur þeirra. Gagnsæ stjórnsýsla er augljóst markmið á tímum sem aldrei hafa boðið upp á jafn marga valkosti í þeim efnum, okkur eru allir vegir færir ef viljinn er fyrir hendi.


Við á Íbúalistanum viljum sjá að samhliða birtingu ítarlegra fundargerða á vef Ölfus (með hlekkjum á aðrar fundargerðir sem vísað er til) sé þess gætt að birta öll skjöl sem varða það mál sem er til umfjöllunar hverju sinni og fylgdu fundarboði eða voru lögð formlega fram á fundi. Við viljum að vandað sé til verka sérstaklega þegar um ræðir skjöl sem liggja til grundvallar ákvörðunum um mál, að teknu tilliti til persónuverndarlaga, upplýsingalaga og stjórnsýsluslaga. Með þessu tryggjum við að allir hafi jafnt aðgengi að upplýsingum sem ákvarðanir byggja á hér í Ölfusi og geti með góðu móti kynnt sér forsendur og ferla í því samhengi. Með þessu skapast aukið traust sem við á Íbúalistanum teljum mikilvæga forsendu góðs samstarfs við íbúa.


Við á Íbúalistanum brennum líka fyrir því að stuðla að virkum samskiptum og höfum þá sýn að íbúar fái tækifæri til þátttöku í lýðræðislegri stefnumótun eftir fjölbreyttum og gagnsæjum leiðum. Við viljum að verklag bæjarstjórnar, bæjarráðs og fastanefnda við ákvarðanatöku og umfjöllun mála feli í sér að leitast sé eftir viðhorfum og skoðunum íbúa. Þessar upplýsingar eiga svo að hafa vægi þegar ákvarðanir eru teknar. Með þessu stuðlum við að því að raddir íbúa fái að heyrast yfir kjörtímabilið líka, ekki bara fyrir kosningar. Færar leiðir í þessu samhengi væru skoðanakannanir, netkosningar, umræðufundir og fleira.


Það er okkur á Íbúalistanum morgunljóst að seta í bæjarstjórn er þjónustustarf fyrst og fremst, tilgangur kjörinna fulltrúa er að vinna í þágu íbúa og ákvarðanir skulu teknar með hagsmuni íbúa að leiðarljósi, allra íbúa. Við getum haft skoðanir, reynslu og hugmyndir um það sem íbúum er fyrir bestu en þegar upp er staðið er það vilji þeirra sem okkur er ætlað að þjónusta sem mestu máli skiptir. Fái fulltrúar Íbúalistans til þess umboð þann 14. maí nk. munum við leggja allt kapp á að fá íbúa að borðinu og á að traust ríki milli fólksins í samfélaginu og kjörinna fulltrúa með gagnsæ vinnubrögð og virk samskipti að leiðarljósi. Við erum hér fyrir ykkur.


Hrafnhildur Lilja Harðardóttir, frambjóðandi í 5. sæti Íbúalistans




48 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page