top of page

Steingrímur Þorbjarnarson

8. sæti

Ég man fyrst eftir mér á Suðureyri við Súgandafjörð. Faðir minn, Þorbjörn Ármann Friðriksson, var þar skólastjóri barnaskólans, og móðir mín, Þóra Steingrímsdóttir var orgelleikari við kirkjuna. Þannig hef ég mína tengingu við hin smærri samfélög úr uppeldinu. Lengst af bjó ég þó í Kópavogi, en fór þaðan að loknu menntaskólanámi til Kína.


Kínverskunámið dró dilk á eftir sér, því ég hef þýtt tugi mynda fyrir sjónvarp og túlkað fyrir tvær kynslóðir æðstu ráðamanna Kínaveldis. Á árunum kring um 2007 var ég aðstoðarmaður yfirtrúnaðarmanns á Kárahnjúkasvæðinu, við mestu framkvæmd Íslandssögunnar. Þangað var ég ráðinn vegna kínverskukunnáttunnar, því helmingur allra starfsmanna var frá Kína.


Ég var leiðbeinandi við sérkennsludeild hjá Grunnskólum Kópavogs, og einnig kenndi ég jarðfræði við Menntaskólann við Sund. Stór hluti minnar vinnu í 30 ár hefur falist í leiðsögn um landið fyrir kínverskumælandi ferðamenn, og á árunum fram að faraldri var ég sölumaður á Asíumörkuðum fyrir Iceland Travel.


Mér er umhugað um að nýta menntun mína, BA í mannfræði og BS í jarðfræði, því það gefur færi á að líta samband manns og náttúru frá fræðilegu sjónarhorni. Höfnin og hafið, sveitir og orkuauðlindir, kallast á við samfélagið með öflugustu máttarstólpum og veikbyggðustu skjólstæðingum sínum.


Ég vil styðja við þetta framboð, því að því stendur drífandi og öflugur hópur fólks sem hefur sérstakan áhuga á félagslegum viðfangsefnum okkar, og vill taka á þeim með faglegum hætti.

Steingrímur Þorbjarnarson
bottom of page