top of page

Hrafnhildur Lilja Harðardóttir

5. sæti

Ég heiti Hrafnhildur Lilja Harðardóttir og er 38 ára Þorlákshafnarbúi í húð og hár. Ég er uppalin hér í Þorlákshöfn, flutti um tíma til Reykjavíkur og síðar Kaupmannahafnar vegna náms, en kom aftur heim með mann og börn, enda hvergi betra að vera. Fyrir mér hefur Þorlákshöfn alltaf verið, og mun alltaf vera, heima.


Ég er tveggja barna móðir og bý í Klængsbúðinni ásamt manni, dóttur og syni. Ég fann það fljótlega eftir að dóttir mín fæddist að langa að koma aftur heim og sé ekki eftir því. Það finnst vart, að mínum mati, betri staður fyrir barn að alast upp og ég gat ekki hugsað mér að börnin mín misstu af því tækifæri að fá, líkt og ég gerði, að alast upp í okkar dýrmæta samfélagi. Það var dásamlegt að fá að koma aftur heim fyrir þessum árum síðan og finna hlýjuna og velvildina frá fólki, svo ekki sé minnst á að fá að tilheyra litlu (ört stækkandi) samfélagi á ný, þess hafði ég saknað hvað mest.


Á mínum yngri árum var ég mikil áhugamanneskja um stjórnmál, ég sat í stjórn Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík um tíma en hef verið óflokksbundin um árabil og kosið marga mismunandi stjórnmálaflokka. Áhugi minn á flokkapólitík hefur farið dvínandi með árunum en ég hef enn mikinn áhuga á málefnum og fann það fljótlega eftir að ég kom til Þorlákshafnar að eiga erfitt með að sitja á mér þegar umræður skapast um málefni samfélagsins okkar. Líklega vegna þess að mér þykir undurvænt um samfélagið okkar og aðbúnaður allra íbúa þess er mitt hjartans mál.


Ég er sálfræðingur að mennt og hef starfað sem slíkur í um áratug. Lengst af hef ég starfað með börnum og unglingum, á námsárunum starfaði ég á Barna- og unglingageðdeild Landsspítala, eftir útskrift fór ég svo að vinna hjá Garðabæ við greiningar barna og ráðgjöf við foreldra og starfsfólk grunnskóla í skólaþjónustu og síðar sem sálfræðingur á Heilsugæslu HSU þar sem ég þjónusta bæði börn og fullorðna. Velferðarmál eru mér mikilvæg, sér í lagi málefni barna. Það er að mínum mati algjört forgangsmál að börnin okkar þurfi ekki að líða skort, að þau fái jöfn tækifæri og að öll þjónusta við börnin okkar í Ölfusi sé eins og best er á kosið. Það er mér líka mjög mikilvægt að við vöndum okkur í ákvarðanatöku um málefni barnanna okkar hér í Ölfusi og að ákvarðanir séu teknar á grundvelli viðamikillar upplýsingaöflunar, rannsókna og að leitað sé til sérfræðinga í málefnum barna við ákvarðanatöku.


Önnur mál sem brenna á mér, svo fátt eitt sé nefnt, eru atvinnumál, umhverfismál og málefni eldri borgara. Ég hef ýmsar hugmyndir um það hvernig megi gera enn betur í þessum málaflokkum en einnig um það hvernig auka megi gagnsæi í vinnubrögðum og hvernig efla megi samstarf við fólkið í samfélaginu við ákvarðanatöku um málefni þess. Mér finnst það sérkennilegt hugmynd að ætla að taka ákvarðanir um málefni hóps eða hópa án þess að eiga við fólk samtal og samráð, það samtal á svo að hafa vægi í ákvarðanatöku.


Ég vona einlæglega að fulltrúar úr okkar frábæra hópi fái hljómgrunn og umboð íbúa til að leggja sín lóð á vogaskálarnar og ég sjálf hlakka til að eiga samtal við sem flesta á komandi vikum og mánuðum. Ég hlakka til að ræða mínar hugmyndir við íbúa og heyra þeirra, ekki síður.


Hrafnhildur Lilja Harðardóttir



Hrafnhildur Lilja Harðardóttir
bottom of page