top of page

Böðvar Guðbjörn Jónsson

2. sæti

Ég heiti Böðvar Guðbjörn Jónsson og er 29 ára. Hér hef ég búið nær allt mitt líf að undanskildum nokkrum árum er ég bjó í Reykjavík og sé ég fram á að búa hér um ókomna tíð ásamt fjölskyldu minni. Eftir að kona mín kynntist þessum frábæra bæ var ekkert annað í stöðunni en að flytja aftur í heimahöfn. Þar höfum við komið okkur vel fyrir ásamt drengjunum okkar tveimur og litlu fjórfættu heimasætunni okkar.


Eftir að hafa slitið barnsskónum í Þorlákshöfn, þá flutti ég til Reykjavíkur þar sem ég stundaði nám samhliða vinnu. Eftir útskrift úr framhaldsskóla hóf ég fljótlega störf hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem ég starfaði á sviði upplýsingatækni samhliða námi við Háskóla Reykjavíkur. Þar starfaði ég frá 2014 þar til að eftirlitið sameinaðist Seðlabankanum árið 2020. Hjá Seðlabankanum starfaði ég í tvö ár áður en ég hóf störf hjá Íslandsbanka.


Í starfi hjá Fjármálaeftirlitinu, síðar Seðlabanka Íslands, vann ég að gagnaskilum fjármálafyrirtækja og úrvinnslu þeirra gagna, en það fól í sér innleiðingu á ýmsum tæknilegum regluverkum frá erlendum eftirlitsstofnunum eins og evrópsku banka-, evrópsku verðbréfamarkaðs- og evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni.


Ég legg áherslu á að innviðir séu í stakk búnir til að taka við aukinni búsetu og að vekja áhuga fyrirtækja á að flytja starfsemi sína hingað. Hér þarf að styðja enn betur við nýsköpun og auka fjölbreytta starfsemi. Tryggja þarf samkeppnishæfni hafnarinnar og að vekja þarf enn meiri athygli á henni, laða að matvælafyrirtæki og önnur fyrirtæki í inn- og útflutningi.


Það eru mörg tækifæri til að gera betur í þjónustu við börn, fatlaða og aldraða. Hér þarf að vera leikskólapláss fyrir öll börn, en staðreyndin er sú að ekki er pláss fyrir öll börn í dag. Foreldrar ungra barna koma þeim ekki í dagvistun fyrr en við eða upp úr tveggja ára aldur og er hér því að ræða talsvert tap á ráðstöfunartekjum heimilanna. Enda þurfa foreldrar að brúa nær heilt ár eftir að fæðingarorlofi lýkur, áður en að börn komast að.


Auka þarf þjónustustig við fatlaða og einnig við aldraða, en í dag býðst þeim einungis grunnþjónusta á borð við heimilisþrif og aðstoð við innkaup. Þetta þekki ég vel eftir að hafa starfað við sambýlið og horft upp á eldri borgara þurfa að flytja frá Þorlákshöfn þar sem þjónusta við eldri borgara er ábótavant. Hér þarf að tryggja það að eldri borgarar geti búið allt til æviloka kjósi þeir þess.


Ég er bjartsýnn að eðlisfari og trúi því að í samvinnu við íbúa getum við gert Ölfus að höfuðborg hamingjunnar. Hér verði eftirsóttarvert að koma upp fjölskyldu og atvinnu og að sveitarfélagið sé í stakk tilbúið að taka við nýjum íbúum og fyrirtækjum.


Böðvar Guðbjörn Jónsson

Hugbúnaðarsérfræðingur og frambjóðandi í 2. sæti Íbúalistans.


Böðvar á facebook og Linkedin


Böðvar Guðbjörn Jónsson
bottom of page