top of page
  • Facebook
  • Instagram

Ása Berglind Hjálmarsdóttir

1. sæti

Ég heiti Ása Berglind Hjálmarsdóttir og er 37 ára og uppalin í Þorlákshöfn en fluttist aftur í heimabæinn fyrir fjórum árum eftir að hafa komið víða við. Það er gaman að segja frá því að ég er búin að prófa að búa á Selfossi, Stokkseyri, Seltjarnarnesi og í Reykjavík svo það má því segja að ég hafi ágætis samanburð þegar kemur að búsetu í ólíkum sveitarfélögum.


Ég er gift móðir þriggja yndislegra og ólíkra barna, tvö þeirra búa með okkur í Þorlákshöfn og eru nemendur í leik- og grunnskóla en sú elsta er farin að búa sjálf í Reykjavík. Betri helmingurinn minn heitir Tómas Jónsson og er tónlistarmaður. Ég er með mastersgráðu í menningarstjórnun með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf og hef einnig farið í gegnum BA og MA nám í Listaháskóla Íslands. Í dag starfa ég sem menningarstjórnandi, frumkvöðull og tónlistarkennari, rek lítið fyrirtæki okkar hjóna og stjórna kvennakór í Þorlákshöfn. Ég tek virkan þátt í ýmsum félagsstörfum og sit í stjórnum Lúðrasveitar Þorlákshafnar, Þollóween skammdegishátíðar, Hljómlistarfélags Ölfuss og hef einnig nýlokið við tveggja ára setu sem formaður foreldrafélags GíÞ.


Það veitir mér mikla ánægju að vinna að því að gera samfélagið bæði betra og skemmtilegra og þess vegna býð ég fram krafta mína í komandi sveitarstjórnarkosningum. Það er gríðarlegur heiður að leiða þennan lista sem samanstendur af ólíku, virkilega kraftmiklu og metnaðarfullu fólki sem allt vill gefa af sér í þágu Sveitarfélagsins Ölfuss.


Ég er komin af harðduglegu fólki sem hefur alla tíð þurft að hafa fyrir lífinu, en amma mín og afi eru ein af þeim sem fluttust til Þorlákshafnar á upphafsárum bæjarins. Amma flutti frá Selvogi þar sem hún ólst upp og afi elti hana hingað frá Haga, sveitabæ sem stóð þar sem Hagalandið á Selfossi er núna. Pabbi var á sjó og keyrði vörubíla stærstan hluta starfsævi sinnar og mamma mín vann um árabil í heimaþjónustunni í dreifbýli Ölfuss. Mér þótti alltaf skemmtilegt þegar ég var barn að fylgja henni og spjalla við fólkið sem bjó í sveitinni. Þarna vaknaði örugglega áhugi minn á að starfa með eldri borgurum en árið 2007 þegar ég var að klára BA nám við Listaháskóla Íslands gerði ég lokaverkefni sem fólst í því að vinna að tónlist á skapandi hátt með eldri borgurum. Þá varð tónlistarhópur eldri borgara í Ölfusi til, Tónar og Trix.


Mörg af mínum stærstu lífsins ævintýrum eru með því dásamlega fólki sem hafa verið meðlimir í tónlistarhópnum Tónum og Trix. Þar má nefna upptökur, útgáfu og útgáfutónleikar á plötunni sem við unnum árið 2015 með tónlistarfólkinu Sölku Sól, Bógómil Font, Kristjönu Stefáns og fleirum. Eins var það stór stund þegar við héldum Samstöðu- og baráttutónleika 2013 þar sem tilgangurinn var að vekja athygli á og mynda samstöðu um málefni eldri borgara í Ölfusi en eins og ég sagði að þessu tilefni í viðtali á sunnlenska.is: ,,Það er eins og gefur að skilja ekki viðunandi að neyðast til þess að flytja frá fjölskyldu, vinum og samfélaginu sem viðkomandi hefur verið partur af meirihluta ævi sinnar vegna þess að það getur ekki mætt þörfum þess. Þetta er mjög sorglega staða og það tekur á að horfa upp á þá sem þurfa að fara gegn sínum vilja úr þorpinu og einnig aðstandendur þeirra sem hafa engin önnur ráð”.


Því miður hefur nákvæmlega ekkert gerst í málefnum eldri borgara síðan þá og staðan sú sama. Það er mér því mikið hjartans mál að bæta úr þessari stöðu og auka við þjónustu eldri borgara svo þau geti búið við öryggi og verið sem lengst í Þorlákshöfn, jafnvel þó heilsan fari að bresta og þau þurfi aukna þjónustu. Við myndum öll vilja vera heima hjá okkur sem lengst áður en kemur að því að þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda en þá þarf stuðningsumhverfið að vera þannig að fólk upplifi sig öruggt á sínu heimili og að ábyrgðin á umönnun sé ekki öll í höndum maka og annarra aðstandanda.


Sveitarfélagið Ölfus er að vaxa á miklum hraða líkt og önnur sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er mikil áskorun að stuðla að því að sveitarfélag vaxi ekki aðeins heldur dafni líka. Lífsgæði íbúa þurfa að vera í forgrunni og vöxtur sveitarfélags má ekki vera á kostnað þeirra. Við sem höfum flutt til Þorlákshafnar á síðustu árum vitum vel hvað dró okkur hingað með fjölskyldurnar okkar. Við viljum vera hluti af góðu samfélagi þar sem er gott að búa og þar sem börnin okkar geta farið örugg á milli húsa og hverfa. Við kusum að búa þar sem við erum laus við hávaðann og mengunina sem fylgir því að búa í höfuðborginni, þar sem við getum með auðveldum hætti komist í tengsl við náttúruna og síðast en ekki síst í samfélagi þar sem mikil áhersla er lögð á góða skóla og stuðningur er við tómstundaiðkun af ýmsum gerðum fyrir ólíkan aldur.


Að því sögðu er mikilvægt að halda áfram uppbyggingu í atvinnumálum en það hefur verið gaman að fylgjast með þeirri miklu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað síðustu árin sem er afrakstur vinnu síðustu kjörtímabila. Uppbyggingin má samt ekki vera á kostnað umhverfis og lífsgæða íbúanna sem búa í Sveitarfélaginu. Það þarf að búa til atvinnustefnu sem tekur mið af þessu og hefur það einnig í för með sér að laða hingað ólík fyrirtæki með atvinnu fyrir fólk með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Það eru örugglega margir íbúar í þessu sveitarfélagi sem myndu kjósa að vinna í heimabyggð í stað þess að keyra yfir fjallið á hverjum degi.


Menning í stóru og smáu samhengi er mér mjög hjartfólgin. Menning getur verið algjört galdratól til að búa til öflugt samfélag og þar er aldeilis hægt að gera betur. Blásum lífi í bókasafnið, nýtum Versali betur, gerum það að menningarhúsi sem stendur öllum félögum til boða án endurgjalds. Auðvitað á Sveitarfélagið að gera eins og það getur til þess að öll félög hafi vettvang til að vinna öflugt starf og ráðhúsið er okkar allra. Nýtum menninguna betur til þess að byggja brýr á milli ólíkra hópa sem búa í þessu sveitarfélagi. Sveitarfélagið þarf að standa sig betur þegar kemur að því að ná til þeirra sem hér búa og eru með erlendan bakgrunn og hjálpa þeim að komast inn í samfélagið. Við græðum öll á því.


Tækifærin eru endalaus í þessu stærðarinnar sveitarfélagi sem er ríkt af allskyns auðlindum. Áskoranirnar eru líka þó nokkrar, en loftslagsváin vofir yfir og alveg ljóst að öll þurfum við að leggja okkar að mörkum til þess að komandi kynslóðir erfi byggilega jörð. Í því felast einnig tækifæri til að vera leiðandi og ganga á undan með góðu fordæmi. Við höfum til að mynda Þorláksskóga sem þarf að endurvekja og skipuleggja með tilliti til framtíðar enda gæti þarna orðið ein fallegasta útivistarperla Suðurlands ef vel er að verkefninu staðið.


Ég hlakka mikið til komandi vikna, ég hlakka til að vinna með þessum frábæra hóp á Íbúalistanum og við erum öll spennt að hitta ykkur sem flest og heyra hvað það er sem brennur á ykkur. Vilji íbúa skiptir máli.


Njótið hækkandi sólar og gangi okkur öllum vel.



Ása á facebook, instagram og twitter.

6927184

Ása Berglind Hjálmarsdóttir
bottom of page