Sigfús Benóný Harðarson
4. sæti
Ég er 42 ára, fæddur og uppalinn á Suðurnesjum, ættaður frá Akureyri og Vestmannaeyjum en er nú Þorlákshafnarbúi í húð og hár. Ég er gæfusamlega giftur Gyðu Sigurðardóttur, sem er uppalin hér í Þorlákshöfn og er nú kennari hér í grunnskólanum. Saman eigum við 3 börn sem öll hafa notið þess að alast hér upp. Einnig á ég son sem býr á Suðurnesjum. Við fluttum hingað saman árið 2007.
Ég hef starfað í 18 ár í lögreglunni, lengst af hjá ríkislögreglustjóra, fyrst sem lögreglumaður og varðstjóri en nú sem aðalvarðstjóri. Ég sinni aðallega þjálfun og kennslu en tek einnig þátt í stærri lögregluaðgerðum. Samhliða þessu sinni ég reglulega annarri kennslu, m.a. á námskeiðum fyrir verðandi valdbeitingar- og vopnaþjálfara lögreglu.
Ég hef sinnt fjölbreyttum verkefnum í lögreglunni og kynnst ýmsum hliðum samfélagsins sem mörgum eru faldar. Þar hef ég oft komið að fólki sem er að upplifa sína erfiðustu tíma. Það getur vissulega tekið á en einnig verið virkilega gefandi þegar hægt er koma fólki til aðstoðar.
Ég tók einnig löggildingu slökkviliðsmanns 2012, er meðlimur í brunavörnum Árnessýslu og er á útkallslista hér í Þorlákshöfn.
Ég hef mikinn áhuga á útivist og hreyfingu, sérstaklega skíðum, golfi, veiði, útilegum og líkamsrækt og nýt þess að stunda það með mínum nánustu.
Líkt og hjá mörgum öðrum eru lífsgæði íbúa mér ofarlega í huga. Ég vil bæði halda í og styrkja almenna þjónustu í sveitarfélaginu en sérstaklega er mér hugleikin þjónusta og aðstoð við fjölskyldur, með áherslu á börn og eldri borgara.
Ég trúi að við getum gert betur.
Að mínu mati eru tækifærin í Ölfusi nánast ótakmörkuð. Mikið landsvæði, orku- og vatnsríkt svæði, sterk og vel staðsett höfn, gullfalleg sveit og ýmis atvinnutækifæri. Hér þurfum við samt að velja rétt, horfa til ábyrgrar uppbyggingar á starfsemi og mannauðs.
Getum við ekki gert betur?
Við sem sveitarfélag þurfum einnig að styðja betur við þá afþreyingu sem er til staðar og huga að frekari uppbyggingu innviða. Með þessu verður bæjarfélagið enn meira aðlaðandi, þjónusta við bæjarbúa aukin og ásókn innlendra og erlendra ferðamanna eykst með miklum jákvæðum samverkandi áhrifum. Þá þarf að setja alvöru kraft í uppgræðslu Þorlákshafnarskóga. Sama kraft og frumbyggjar bæjarins gerðu fyrir 70 árum, sem gerði þetta land byggilegt fyrir okkur öll.
Við getum betur.