top of page

Styðjum við barnafólkið



Úrræðaleysi foreldra ungbarna


Íbúalistinn vill bæta hag fjölskyldna því við vitum fyrir víst að þegar innviðir sveitafélagsins eru ekki í stakk búnir til að taka við aukningu ungbarna fólks, getur það haft töluverð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna. Nú er fæðingarorlof hérlendis einungis 12 mánuðir fyrir fólk á vinnumarkaði og býðst fólki í námi örlítill fæðingarstyrkur. Upp er komin sú staða að börn komast ekki hér að í leikskóla fyrr en við 2 ára aldur. Það er því augljóst að annað hvort þurfi annað foreldrið að brúa bilið eða koma þurfi barninu til dagforeldris. Þegar skortur er svo á dagforeldrum og þar engin pláss laus, þá standa foreldrar frammi fyrir miklu tapi á ráðstöfunartekjum heimilisins.


Nú vissulega stendur til að byggja nýjan leikskóla, en sá skóli verður líklega ekki tilbúinn á næstu tveimur árum og heldur ekki uppgefið að sá leikskóli taki við börnum við 12 mánaða aldur. Það gefur því skýra mynd um að talsvert tekjutap komi til með að vera hjá þessum fjölskyldum. Hversu miklir fjármunir er hér um að ræða?


Ráðstöfunartekjur fólks í sveitarfélaginu Ölfus


Ef litið er til árlegra ráðstöfunartekna heimila í sveitarfélaginu fyrir árið 2020, þá eru karlar að meðaltali með 5.307.000 og konur 4.353.000. Það er því mikið í húfi fyrir fjölskyldur ungra barna sem komast ekki í dagvistun fyrr en nærri ári eftir að fæðingarorlofi lýkur.


Dæmigert neysluviðmið vísitölufjölskyldu í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins þar sem annað barnið er í dagvistun og hitt heima fyrir er um 483.000 kr. á mánuði án húsnæðiskostnaðar.



Þessar tölur fást úr reiknivél Stjórnarráðsins fyrir árið 2019, eða fyrir tíma aukinnar verðbólgu í kjölfar heimsfaraldar og stríðs. Það er því augljóst að fjölskyldur sem þessar geta átt í erfiðleikum með að ná endum saman án aðkomu lánardrottna.

Oftar en ekki er það tekjulægri einstaklingurinn sem brúar bilið. Því skulum við taka mið af því hér að neðan.


Tekjuhærri einstaklingurinn er á vinnumarkaði allt árið og er með ráðstöfunartekjur upp á 5.307.000. Hitt foreldrið er heimavinnandi fyrstu 10 mánuði ársins og er því eingöngu með ráðstöfunartekjur fyrir tvo mánuði, eða 725.500. Samanlagt hafa þau því 6.032.500 til að ráðstafa fyrir árið.



Ef við tökum svo mið af dæmigerðu neysluviðmiði fyrir vísitölufjölskylduna fyrir allt árið, þá þarf hún að greiða 5.794.942. Eftir stendur 237.558 til að greiða af húsnæðiskostnaði út árið. Það einfaldlega gengur ekki upp og því neyðast foreldrarnir til að taka lán til að standa straum af þeim kostnaði. Ef dæmið yrði sett upp fyrir einstætt foreldri væri dæmið talsvert svartsýnna.


Sveitarfélagið hefur reynt að koma til móts við fjölskyldur í slíkum aðstæðum með mánaðarlegum heimagreiðslum upp á 41.600 eða 48.000 fyrir einstæða foreldra og námsmenn, en það naumlega dekkar yfir tíund af ráðstöfunartekjum tekjuminni einstaklingsins.


Styðjum við barnafólkið

Hvað geta sveitarfélög gert til að styðja við barnafólk? Á komandi tímum stendur til að leikskólar landsins verði gjaldfrjálsir og ættu því sveitarfélögin að beita fyrir sér að lækka gjöldin þangað til að því markmiði næst. Þeir verða þó ekki gjaldfrjálsir á einni nóttu og þarf því þangað til að koma til móts við barnafólk með öðrum leiðum. Ein besta leiðin til þess væri að eyrnamerkja ungbarnadeild til frambúðar sem tæki við börnum við 12 mánaða aldur. Það myndi létta undir foreldrum að þurfa ekki að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi lýkur með tilheyrandi tapi á ráðstöfunartekjum. Það eitt og sér getur sparað fjölskyldum milljónir.


Íbúalistinn ætlar að bæta hag fjölskyldna í Ölfusi og flýta byggingu nýs leikskóla eins og mögulegt er og eyrnamerkja þar til framtíðar eina deild fyrir börn frá 12 mánaða aldri.


Önnur leið til að koma til móts við ungbarna fjölskyldur væri t.a.m. að auka við greiðslurnar sem að þessir aðilar fá og jafnframt koma til móts við þau með öðrum leiðum líkt og að fella niður hin ýmis gjöld eins og fasteignagjöld, skólagjöld systkina, frístundagjöld o.s.frv. og ætlar Íbúalistinn að skoða færar leiðir í þeim efnum fáum við umboð til í komandi sveitarstjórnarkosningum.


Það er augljóst að seinni leiðin sem um ræðir hér er ekki á pari við þá fyrri þegar horft er til ráðstöfunartekjur heimila fólks með ungbörn þótt hún vissulega komi betur til móts við þarfir þeirra sem býðst í dag.


Eitt er víst. Það þarf að bæta kjör þessara fjölskyldna.


Böðvar Guðbjörn Jónsson

2. sæti H-listans




87 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page