top of page

Fjölmenning í Ölfusi



Líkist samfélagið ekki hendinni með sínum fimm mismunandi fingrum? Rétt eins og þjóðirnar

sem samfélagið okkar samanstendur af. Ef þær kynnast ekki geta þær ekki unnið saman sem skyldi.


Okkur vantar fjölmenningarhús í sveitarfélagið. Við getum leyst það með aðgangi að sal í

Versölum. Fólk af erlendum uppruna getur þá fengið tækifæri til að komast betur inn í

samfélagið. Útlendingar lokast gjarnan af heima hjá sér og samskipti á vinnustað verða

einnig takmarkaðri en vera þyrfti vegna tungumálaörðugleika. Kannanir sýna ekki aðeins

mikinn mun á stöðu innflytjenda og innfæddra, heldur einnig barna þeirra. Það er ekki síður

alvarlegt því við viljum að allir einstaklingar sem fara í gegnum okkar skólakerfi fái tækifæri

til að nýta sína hæfileika. Komið hefur í ljós að börn með erlent ríkisfang nýta frístundastyrk sjaldnar en önnur, og má eflaust bæta úr því með betri upplýsingagjöf.


Íslenskukennsla er lykilatriði, og þá er ekki átt við „smá íslensku“ heldur „alvöru íslensku“.

Hugsunin má ekki einskorðast við að hér sé um vinnuafl að ræða sem væntanlega nægi

að ná takmörkuðum tökum á tungumálinu. Forðumst að lenda í slíkri afmennskun og reynum

að hafa það efst í huga að þegar einstaklingur sest hér að telst hann vera fullgildur meðlimur

samfélagsins á sama hátt og allir aðrir. Það er ekki síst atvinnulífinu í hag að starfsfólkið geti

tjáð sig óhindrað hvert við annað.


Það sem hingað til hefur verið gert, svo sem að halda fjölmenningarvikur og koma á stöku

viðburðum, nægir ekki. Starfsemin þarf að vera miklu samfelldari, skipulagðari og öflugri í

alla staði. Virkja þarf frumkvæði innflytjenda til að kynna sína menningu og sérkenni, á sama

hátt og við höfum áreiðanlega gaman af því að kynna Ísland á erlendri grundu. Hér er fólk af

mörgum þjóðernum og mismunandi svæðum og af nógu að taka. Ef áhugi er t.d. fyrir

dönsum frá einhverjum löndum má æfa þá reglulega og sýna.


Aukin samskipti auðvelda upplýsingastreymi. Þeir sem aðfluttir eru þurfa ekki síður en aðrir

að standa í alls kyns útréttingum og skráningum, sem öllum getur reynst erfitt að leysa af

hendi. Stundum reyna börn að túlka fyrir foreldrana en auðvitað á að vera sem auðveldast

að leita sér aðstoðar á þar til bærum vettvangi. Úti um allt land er farið að bregðast við

þessum samfélagslegu breytingum, t.d. með ráðningu fjölmenningarfulltrúa.


Við hjá Íbúalistanum viljum taka heildstætt á þessum málum, með því að endurvekja stöðu

menningarfulltrúa. Það hlutverk yrði þá útvíkkað nokkuð, og kallað staða menningar- og

samskiptafulltrúa, með tilvísun í að auk þess að hafa umsjón með hefðbundnum

menningartengdum verkefnum, sé ætlunin að hvetja til aukinna samskipta innan

samfélagsins. Við viljum að fólk geti notið sín sem best og að aðstöðuleysi, tækifærisskortur

og vöntun á frumkvæði komi ekki í veg fyrir það.


Rumyana Björg Ivansdóttir, 6. sæti Íbúalistans

6 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


Os comentários foram desativados.
bottom of page