top of page
  • Facebook
  • Instagram

Dýrmætasta auðlindin



Mannauður er dýrmætasta auðlind hvers sveitarfélags. Það þarf að hlúa vel að þessari auðlind og er það áherslumál okkar á Íbúalistanum. Það er aðdáunarvert hvernig starfsfólk sveitarfélagsins hefur ekki aðeins staðið af sér erfiðar aðstæður í heimsfaraldri heldur einnig almennt erfiðar starfsaðstæður. Þar ber helst að nefna skort á forstöðumanneskju á Níunni, of mörg verkefni fyrir of fá stöðugildi á þessum sama stað og tíð stjórnendaskipti á Bergheimum eftir að leikskólinn var einkavæddur í skyndi. Við viljum færa þessu starfsfólki bestu þakkir okkar, sem íbúa í sveitarfélaginu Ölfusi, því það er alveg á hreinu að allt starfsfólk sveitarfélagsins hefur gert sitt allra besta og rúmlega það!


Við á Íbúalistanum viljum horfa inn á við og hlúa að samfélaginu, styrkja innviði þess og mannauð. Í því samhengi viljum við ráða mannauðsstjóra því mannauður sveitarfélagsins er lykillinn að góðum árangri. Með því að ráða mannauðsstjóra þá getum við verið með fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og að bjóða upp á stuðning og þjálfun fyrir stjórnendur og starfsfólk sveitarfélagsins sem styrkir það, dregur úr álagi og langtímaveikindum.


Hlutverk mannauðsstjóra


Hlutverk mannauðsstjóra er margbreytilegt en snýr fyrst og fremst að því að styðja við starfsmenn, vera talsmaður þeirra og aðstoða stjórnendur við ákvarðanatöku þegar kemur að mannauði í sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna þá er innan verksviðs mannauðsstjóra að sjá um ráðningar, stjórnendaþjálfun, vinnustaðakannanir, starfslok og taka á málum eins og einelti og kynferðislegri áreitni. Mannauðsstjóri hefur einnig stefnumótandi hlutverk, þ.e.a.s. hann setur mannauðsmál í samhengi við stefnur og markmið sveitarfélagsins. Að síðustu nefni ég að mannauðsstjóri hefur menntun í breytingastjórnun og getur þannig tryggt að faglega sé staðið að umbreytingum sem kunna að þurfa að eiga sér stað innan stofnana sveitarfélagsins.


Við á Íbúalistanum teljum að það sé mjög góð fjárfesting fyrir samfélagið okkar að ráða mannauðsstjóra því það muni skila sér í meiri stöðugleika í stofnunum þess, minni starfsmannaveltu og farsælum stjórnendum.


Íbúalistinn vill bæta kjör fjölskyldna, auka lífsgæði eldri borgara og leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi.


Við bjóðum upp á okkar krafta og ef þú vilt nýta þá biðjum við þig um að muna eftir því að mæta á kjörstað og merkja X við H.


Ása Berglind Hjálmarsdóttir

oddviti Íbúalistans


50 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page